Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Úrskurður í máli nr. IRN22010910

Ár 2022, þann 7. júlí er í innviðaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli IRN22010910

 

Kæra Air Canada

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.          Kröfur og kæruheimild

Þann 20. október 2021 barst ráðuneytinu kæra Air Canada (hér eftir nefnt kærandi) vegna ákvörðunar Samgöngustofu nr. 47/2021 í máli X (hér eftir nefndur farþegi) vegna kvörtunar um seinkun á flugi Air Canada nr. AC1971 þann 4. ágúst 2019. Með ákvörðun Samgöngustofu var kæranda gert að greiða farþeganum bætur að fjárhæð 600 evrur

Kæruheimild er í 3. mgr. 126. gr. c. loftferðalaga nr. 60/1998 og 18. gr. laga nr. 119/2012 um Samgöngustofu.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Þann 14. maí 2020 barst Samgöngustofu kvörtun frá Vol en Retard f.h. farþegans. Farþeginn átti bókað far með flugi kæranda nr. AC1971 frá Keflavík til Toronto og þaðan með tengiflugi nr. AC1792 frá Toronto til Quebec þann 4. ágúst 2019. Farþeginn bókaði framangreind flug undir einu bókunarnúmeri.

Áætlaður komutími flugs nr. AC1791 til Toronto var kl. 11:55 en raunverulegur komutími var kl. 13:08 eða seinkun um eina klukkustund og 13 mínútur. Seinkun á flugi farþegans til Toronto leiddi til þess að hann missti af tengifluginu frá Toronto til Quebec.

Kærandi útvegaði farþeganum nýtt flug á lokaákvörðunarstað og var farþeginn kominn á lokaákvörðunarstað fjórum klukkustundum og 37 mínútum síðar en upphaflega var áætlað.

Farþeginn fór fram á staðlaðar skaðabætur á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sbr. reglugerð nr. 1048/2012 um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum í flugi sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt eða vegna tapaðs farangurs eða tjóns á honum.

Þann 29. september 2021 ákvarðaði Samgöngustofa að kæranda beri að greiða farþeganum staðlaðar skaðabætur að fjárhæð 600 evrum skv. c-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Með stjórnsýslukæru móttekinni 20. október 2021 kærði kærandi ákvörðun Samgöngustofu til innviðaráðuneytisins.

Umsögn Samgöngustofu barst ráðuneytinu þann 21. janúar 2022.

Þann 25. febrúar var kæranda gefinn frestur til þess að koma sjónarmiðum sínum að. Með tölvupósti dags. 28. febrúar ítrekaði kærandi fyrri rökstuðning.

 

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að flug ZX1971 þann 4. ágúst 2019 frá Keflavík til Toronto hafi seinkað vegna óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi reglugerðar ESB nr. 261/2004 og farþeginn eigi því ekki rétt til skaðabóta samkvæmt reglugerðinni. Fyrra flugi vélarinnar frá Toronto til Keflavíkur hafi seinkað þar sem gera þurfti eldsneytisstopp vegna veðuraðstæðna á flugleiðinni til Keflavíkur. Kærandi lagði fram veðurgögn því til stuðnings.

Þá hafi flug ZX1971 þann 4. ágúst 2019 frá Keflavík til Toronto seinkað vegna þess að flug ZX1971 þann 3. ágúst 2019 frá Toronto til Keflavíkur hafi þurft að millilenda við Hjartarvatn (YDF) vegna veðurs enda hafi flugmenn þurft að leggja sveig á leið sína sem hafi lengt ferðina og gert það að verkum að meira eldsneytis væri krafist en ella.

Skyldur kæranda takmarkist við eða séu útilokaðar þegar atvik ráðast af ófyrirsjáanlegum atvikum sem hefði ekki verið hægt að komast hjá þrátt fyrir að allar nauðsynlegar ráðstafanir yrðu gerðar. Meðal þessara ófyrirsjáanlegu aðstæðna teljist veðurfarslegar aðstæður sem samrýmist ekki framkvæmd loftferða. Slíkar aðstæður hafi verið uppi hvað varðar beint flug ZX1971 þann 4. ágúst 2019.

Kærandi leggur áherslu á að hann gæti fyllsta öryggis þegar það kemur að flugsamgögnum. Allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að lágmarka tafir vegna veðuratburðarins.

 

IV.       Ákvörðun og umsögn Samgöngustofu

Samgöngustofa rekur að um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum sé fjallað um í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar komi hins vegar ekki fram með skýrum hætti að flugrekandi skuli greiða bætur skv. 7. gr. reglugerðarinnar vegna tafa eða seinkunar eins og átt getur við þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð EB nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Af þessu leiði að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum seinna eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eigi rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Samgöngustofa byggir á því að loftferðalögum nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 sé ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 sé réttur farþega til skaðabóta samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og beri að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann  Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.

Fyrir liggi að farþeginn átti bókað far með flugi nr. AC1971 og AC1792 þann 4. ágúst 2019 og að hann var komin á lokaákvörðunarstað fjórum klukkustundum og 37 mínútum síðar en upphaflega var áætlað.

Að mati stofnunarinnar hafi álitaefni málsins verið hvort seinkun á flugi farþegans megi rekja til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Við meðferð málsins hafi sérfræðingur Samgöngustofu í flugrekstrardeild verið beðinn um að leggja mat á framlögð veðurgögn kæranda. Að mati sérfræðingsins þá hafi upplýsingarnar verið ófullnægjandi og engin gögn liggi fyrir um flugleiðina eða veður á henni. Þá hafi veðrið í Keflavík verið ágætt þann 4. ágúst 2019 sem og dagana á undan og eftir. Þá hafi sérfræðingurinn stuðst við veðurskeyti frá Keflavík 3. ágúst 2019 kl. 08:00 og 12:00 og 4. ágúst kl. 10:30 og hafi veðrið verið svipað alla daga.

Samgöngustofa telur að slæmar veðuraðstæður falli undir óviðráðanlegar aðstæður í skilningi 3. mgr. 5. gr. 4 reglugerðarinnar sbr. einnig 14. inngangslið reglugerðarinnar. Í málinu hafi kærandi borið fyrir sig að seinkun á komu flugs nr. AC1971 þann 4. ágúst 2019 til Toronto hafi mátt rekja til eldsneytisviðkomu vegna ófyrirséðra og sterkra mótvinda í fyrra flugi vélarinnar á leið til Keflavíkur. Að mati Samgöngustofu teljist sterkir mótvindar ekki óviðráðanlegar aðstæður í skilningi reglugerðar EB nr. 261/2004. Því hafi skilyrði bótaskyldu skv. 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar verið uppfyllt.

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa kæranda lýtur að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfum farþegans um bætur verði hafnað með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið.

Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun Samgöngustofu fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar ber Samgöngustofa ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að verði farþegar fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.

Fyrir liggur að flugi ZX1971 þann 4. ágúst 2019 frá Keflavík til Toronto hafi seinkað um rúmlega fjórar klukkustundir. Byggir kærandi á því að seinkunina megi rekja til veðurskilyrða.

Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er með reglugerðinni leitast við að auka neytendavernd með því að skýra réttindi farþega og kveða á um meðferð kvartana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og auðvelda úrlausn mála. Þá bendir ráðuneytið á að það er meginregla samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 að farþegar eigi rétt á skaðabótum verði þeir fyrir aflýsingu eða mikilli seinkun á flugi. Sönnunarbyrði fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið uppi hvílir alfarið á flugrekandanum og ber honum að sýna fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir aflýsinguna eða seinkunina. Takist sú sönnun ekki ber flugrekandinn hallann af þeim sönnunarskorti. Þar sem reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt. Í því sambandi bendir ráðuneytið á 14. inngangslið reglugerðar EB nr. 261/2004 þar sem fram kemur að slíkar aðstæður geti t.a.m. skapast af völdum ótryggs stjórnmálaástands, veðurskilyrða sem samrýmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, ófullnægjandi flugöryggis og verkfalla sem hafi áhrif á starfsemi flugrekandans.

Er það mat ráðuneytisins að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að fyrir hendi hafi verið óviðráðanlegar aðstæður vegna veðurs. Þá hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn sem hnekki því mati Samgöngustofu að gögnin beri það ekki með sér að veður hafi verið með þeim hætti að slá mætti því föstu að seinkun á umræddu flugi mætti rekja til veðuraðstæðna. Könnun úr upplýsingakerfum sem Samgöngustofa hefur aðgang að hafi jafnframt leitt í ljós að veðurskilyrði voru góð dagana fyrir og eftir umrætt flug. Þar sem sönnunarbyrðin um að seinkun hafi komið til vegna óviðráðanlegra aðstæðna hvílir á kæranda leiðir það til þess að ráðuneytið telur að eigi hafi verið uppi óviðráðanlegar aðstæður sem ekki hafi verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

 

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum